Selfoss tók á móti Þrótti í sínum fyrsta heimaleik í Bestudeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Reyndar var leikið á gervigrasvellinum, þar sem Þróttarar léku við hvurn sinn fingur og sigruðu 1-2.
Aðeins voru fjórar mínútur liðnar af leiknum þegar Selfossvörnin sofnaði á verðinum og Tanya Boychuk kom Þrótti yfir með laglegu marki. Slæmur tímapunktur til að fá á sig mark og Idun Jörgensen hafði nóg að gera í marki Selfoss í framhaldinu.
Selfyssingar áttu þó sínar sóknir og á 38. mínútu slapp hin unga og efnilega Emelía Óskarsdóttir innfyrir og skoraði frábært mark í sínum fyrsta Bestudeildarleik. Þessi sprettur Emelíu gladdi augað og hún lét yfirleitt til sín taka þegar hún fékk boltann.
Staðan var 1-1 í hálfleik og Þróttarar voru mun öflugri í seinni hálfleiknum. Selfyssingum leiðist reyndar ekkert að verjast og þær gera það vel en heimakonur komu þó engum vörnum við á 68. mínútu þegar Sæunn Björnsdóttir smurði boltanum upp í samskeytin með vinstri fæti og tryggði Þrótturum sigurinn.
Þróttur er á toppnum með 6 stig en Selfoss í 9. sæti, án stiga, eftir tvær umferðir.