Ægir náði í sitt fyrsta stig í 2. deild karla í knattspyrnu í dag og KFR lék sama leik í 3. deildinni. Rangæingar leika tvo leiki á Norðurlandi um helgina.
Ægir tók á móti Vestra í 2. deildinni á Þorlákshafnarvelli. Leikurinn var fjörugur og bæði lið fengu ágæt færi í fyrri hálfleik. Guðmundur Garðar Sigfússon kom Ægi yfir á 28. mínútu með stórglæsilegu marki og staðan var 1-0 í hálfleik.
Vestramenn voru sprækari í seinni hálfleik og fengu nokkur góð færi sem öll fóru forgörðum. Fimm mínútum fyrir leikslok tókst þeim hins vegar að jafna metin og lokatölur urðu 1-1.
Þetta var fyrsta stig Ægis sem náði þar með að lyfta sér úr botnsætinu.
KFR sótti Dalvík/Reyni heim í 3. deildinni í dag en liðið leikur tvo leiki á Norðurlandi um helgina, mætir Tindastóli á Hofsósvelli á morgun. Bæði KFR og Dalvík/Reynir voru án stiga fyrir leikinn í dag, en þau sættust á skiptan hlut, gerðu 2-2 jafntefli.
Sigurður Skúli Benediktsson kom KFR yfir á 10. mínútu en Dalvík/Reynir jafnaði um miðjan fyrri hálfleikinn, 1-1 í leikhléi. Axel Fannar Sveinsson kom Rangæingum aftur í forystuna á 56. mínútu en átta mínútum fyrir leikslok náðu Dalvíkingar að jafna metin.
Þrátt fyrir stigið er KFR enn í botnsæti 3. deildarinnar þar sem liðið er með lakari markatölu en Dalvík/Reynir og KFS, sem sömuleiðis hafa 1 stig.