Fyrsta stig Selfoss

Selfoss náði í fyrsta stig vetrarins í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar liðið gerði 27-27 jafntefli við ÍR á útivelli.

ÍR-ingar leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 16-12, en Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleik og börðust vel fyrir stiginu.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Selfossi með 8 mörk, auk þess sem hann átti 7 stoðsendingar og vann einnig vel í vörninni. Andri Már Sveinsson skoraði sex mörk úr sex skotum, Hörður Bjarnarson skoraði þrjú mörk og þeir Ómar Helgason, Guðni Ingvarsson, Eyþór Lárusson og Magnús Magnússon skoruðu allir tvö mörk. Matthías Halldórsson og Andri Hallsson skoruðu báðir eitt mark.

Sverrir Andrésson lék vel í markinu, varði 21/2 skot og var með 44% markvörslu.

Fyrri greinFSu tapaði í hörkuleik
Næsta greinFór útaf í slabbi