Selfyssingar náðu í sitt fyrsta stig í Bestudeild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið heimsótti Íslandsmeistara Vals að Hlíðarenda. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, Valur ívið meira með boltann en bæði lið fengu ágætis marktækifæri en staðan var 0-0 í hálfleik.
Valur hóf seinni hálfleikinn af krafti og Bryndís Arna Níelsdóttir kom þeim yfir á 49. mínútu eftir þunga sókn. Selfyssingar lögðu ekki árar í bát og á 59. mínútu kom Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir boltanum í netið eftir atgang í vítateig Vals.
Selfyssingar voru líklegri á lokakaflanum og Barbára Sól Gísladóttir átti skalla rétt framhjá á 80. mínútu og á 90. mínútu átti Selfoss að fá vítaspyrnu þegar leikmaður Vals handlék boltann innan vítateigs. Dómarinn var ekki á sama máli og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.