Ungmennalið Selfoss og ungmennalið Vals áttust við í hörkuleik í Grill66 deild karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.
Leikurinn var jafn fyrstu 11 mínúturnar en þá tóku Selfyssingar við sér og náðu með frábærum leik að koma sér upp átta marka forystu, 20-12. ValurU skoraði tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 20-14 í leikhléi.
Selfoss-U hafði örugga forystu fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik en á lokakaflanum söxuðu ValsUmenn snarlega á forskot þeirra og náðu að jafna, 30-30, þegar rétt rúm mínúta var eftir. Selfyssingar héldu boltanum það sem eftir lifði leiks og náðu tveimur skottilraunum til að knýja fram sigur en báðar fóru í súginn. Niðurstaðan; jafntefli.
Sigurður Snær Sigurjónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Hans Jörgen Ólafsson skoraði 7, Guðjón Baldur Ómarsson 6, Elvar Elí Hallgrímsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 4 og Árni Ísleifsson 1. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 19 skot í marki Selfoss.
Þetta var fyrsta stig ungmennaliðs Selfoss í deildinni í vetur en þeir eru með 1 stig í 8. sæti á meðan ValurU er í 2. sæti með 5 stig.