Árborg tapaði sínum fyrsta leik í A-riðli 3. deildar í sumar þegar liðið tók á móti Birninum á Selfossvelli.
Leikurinn var tíðindalaus í fyrri hálfleik þar sem Bjarnarmenn voru meira með boltann en sköpuðu engin færi. Steinar Örn Stefánsson þurfti þó að taka einu sinni á honum stóra sínum í marki Árborgar og varði með tilþrifum.
Það sama var uppi á teningnum framan af síðari hálfleik en Marínó Þór Jakobsson kom Birninum yfir á 57. mínútu þegar hann slapp innfyrir Árborgarvörnina. Þegar leið á seinni hálfleikinn jókst sóknarþungi Árborgar og á lokakaflanum átti Guðmundur Á. Böðvarsson skalla í þverslá auk þess sem Hartmann Antonsson fékk gott færi.
Þrátt fyrir tapið er Árborg áfram á toppi riðilsins með sjö stiga forskot á KFG sem á leik til góða.