Hamarskonur töpuðu sínum fyrsta leik í Iceland Express-deild kvenna í vetur þegar þær fengu Keflavík í heimsókn í dag.
Hamar byrjaði betur og náði 10 stiga forskoti í 1. leikhluta, 26-16. Í upphafi 2. leikhluta tók við fáránlegur kafli hjá Keflavík þar sem þær skoruðu 31 stig gegn 4 stigum Hamars og komust í 30-47. Keflavík skoraði fimm þriggja stiga körfur í þessum leikhluta en Hamar náði að svara fyrir undir lokin og staðan var 42-55 í hálfleik.
Munurinn jókst í 22 stig í seinni hálfleik, 51-73, og vonleysið tók að grípa um sig hjá Hamarskonum. Ágúst Björgvinsson hamraði á því í öllum leikhléum liðsins að möguleikinn væri ennþá fyrir hendi. Hamarskonur hættu að horfa á stigatöfluna og fóru að einbeita sér að leiknum og að þétta vörnina.
Ræðan hjá Ágústi virkaði því Hamar tók við sér í 4. leikhluta og náði að minnka muninn í eitt stig, 83-84, þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Þá var bensínið búið á tanknum og Keflavík kláraði leikinn eftir að Hamar missti boltann í tvígang á lokamínútunni. Lokatölur 86-93.
Með sigri í dag hefði Hamar tryggt sér deildarmeistaratitilinn en Keflavík á enn möguleika á titlinum eftir sigurinn í dag.
Jaleesa Butler var best í liði Hamars með þrefalda tvennu, 29 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar auk fjögurra varinna skota. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 19 stig og fyrirliðinn Íris Ásgeirsdóttir átti góðan leik með 14 stig, auk þess að taka 8 fráköst.
Hjá Keflavík var Jacquline Adamshick óstöðvandi framan af leik. Hún skoraði 33 stig í leiknum, þar af 29 í fyrri hálfleik og tók 20 fráköst að auki.