Kvennalið Hamars tapaði sínum fyrsta leik í 1. deildinni í körfubolta í vetur þegar liðið heimsótti Breiðablik í dag. Lokatölur voru 62-55.
„Við byrjuðum á hælunum og grófum okkur of stóra holu í 2. leikhluta. Hann var skelfilegur hjá okkur á meðan Blikarnir voru að spila virkilega vel. Við áttum flotta spretti í seinni hálfleik og náðum að minnka muninn niður í þrjú stig en Blikarnir hittu úr stóru skotunum á meðan við vorum ráðalausar og hittum illa,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is.
Breiðablik hafði frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 15-13. Hamar komst yfir í upphafi 2. leikhluta, 15-16, en eftir það gekk hvorki né rak hjá liðinu fram að leikhléi. Breiðablik náði 16-4 áhlaupi og leiddi í hálfleik, 31-20.
Hamar byrjaði af krafti í 3. leikhluta og minnkaði muninn í 37-34 en Breiðablik bætti þá í og leiddi 44-39 að loknum 3. leikhluta.
Breiðablik var skrefi á undan í upphafi 4. leikhluta en Hamar náði að minnka muninn niður í sex stig þegar mínúta var eftir af leiknum en nær komust Hamarskonur ekki.
Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 18 stig og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 10.
Þrátt fyrir tapið eru Hamarskonur nokkuð öruggar í efsta sæti deildarinnar með 24 stig en Stjarnan er í 2. sæti með 20 stig og á leik til góða á Hamar.