Fyrsta tap Hamars í deildinni

Karlalið Hamars tapaði sínum fyrsta leik í 1. deildinni í körfubolta í vetur þegar Valsmenn komu í heimsókn í Hveragerði í kvöld. Lokatölur í þessu uppgjöri toppliðanna voru 83-91.

Fyrir leikinn voru bæði liðin taplaus en Valsmenn hafa leikið einum leik meira í deildinni. Þeir hafa nú sextán stig í toppsætinu en Hamar er í 2. sæti með tólf stig. Þar á eftir koma Haukar og Höttur með tíu stig.

Valsmenn voru skrefinu á undan í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 23-28. Hamar kom til baka í 2. leikhluta með Jerry Hollis í miklu stuði. Kappinn skoraði fjórtán stig í leikhlutanum og Hamar leiddi í hálfleik, 48-44.

Hamarsmenn voru sterkari framan af 3. leikhluta og komust í 67-56 en Valur lauk leikhlutanum á 2-8 áhlaupi og staðan var 69-64 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Fjórði leikhlutinn var í járnum og þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum komust Valsmenn yfir, 79-81. Hamarsmenn hittu hins vegar illa á lokamínútunum og Valsmenn kláruðu leikinn af öryggi á vítalínunni.

Jerry Hollis var stigahæstur Hvergerðinga með 29 stig, Lárus Jónsson skoraði 15, Örn Sigurðarson 13 og Ragnar Nathanaelsson 12 auk þess sem sláninn tók átján fráköst og var með fína tölfræði.

Fyrri greinRekstrarafgangur 22 milljónir króna
Næsta greinHeitavatnslaust í Þorlákshöfn