Haukar urðu fyrstir til að sigra Selfoss í 2. deild karla í knattspyrnu í sumar. Liðin mættust í 8. umferðinni á Selfossi í kvöld og gestirnir sigruðu 1-2.
Selfyssingar voru fyrri til að skora en Dagur Jósefsson kom þeim yfir á 13. mínútu þegar hann kom boltanum í netið eftir klafs í vítateig Hauka uppúr hornspyrnu Selfyssinga. Tíu mínútum síðar misstigu Selfyssingar sig illilega, misstu boltann klaufalega á miðjunni og snögg stungusending í gegn skilaði Haukum jöfnunarmarki. Bæði lið áttu hálffæri í kjölfarið en á 40. mínútu keyrðu Haukar á Selfossvörnina og skoruðu gott mark, 1-2 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var eign Selfyssinga að mestu. Haukar pökkuðu í vörn og þeim vínrauðu gekk illa að finna smugur á varnarmúr gestanna. Þeir fengu þó nokkur hálffæri en markvörður Hauka var með allt á hreinu og skilaði góðu dagsverki.
Þrátt fyrir tapið eru Selfyssingar enn á toppi deildarinnar með 19 stig og eins stigs forskot á Víking Ó í 2. sætinu. Haukar eru í 7. sætinu með 11 stig.