Á Íslandsmótinu í borðtennis sem fram fór í TBR-húsinu um síðustu helgi sigraði Halldóra Ólafs, Umf. Selfoss, í tvíliðaleik kvenna með Nevena Tasic, Víkingi, og er þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill Umf. Selfoss i borðtennis.
Þær Halldóra og Nevena sigruðu Aldísi Rún Lárusdóttur KR og Sól Kristínardóttur Mixa BH 3-0 í úrslitum, en þær síðarnefndu voru ríkjandi Íslandsmeistarar.
Halldóra Ólafs vann jafnframt bronsverðlaun í einliðaleik en Íslandsmeistari varð Nevena Tasic eftir sigur á Guðbjörgu Völu Gunnarsdóttur KR, sem sigraði Sól Kristínardóttur Mixa í undanúrslitum.
Á Íslandsmótinu tóku sex keppendur frá Umf. Selfoss þátt. Auk Halldóru þeir Almar Elí Ólafsson, Elvar Ingi Stefánsson, Rubén Illera Lopez, Stefán Orlandi og Stefán Birnir Sverrisson sem stóðu sig með prýði.

