Kvennalið Selfoss í knattspyrnu leikur sinn fyrsta leik í sögunni í efstu deild í dag þegar liðið tekur á móti KR á Selfossvelli kl. 19:15 í kvöld.
Uppgangurinn hefur verið mikill í kvennaknattspyrnunni á Selfossi undanfarin ár en aðeins eru fjögur ár síðan meistaraflokkurinn var endurvakinn.
Haustið 2010 var liðið nálægt því að komast upp úr 1. deildinni en þær bættu um betur í fyrrahaust þegar þær slógu Keflavík úr keppni á sannfærandi hátt og tryggðu sér sæti í deild þeirra bestu.
Sami kjarninn hefur verið í leikmannahópi liðsins á undanförnum árum en nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá því síðasta haust. Anna Þorsteinsdóttir, Aníta Guðlaugsdóttir og Lena Rut Guðmundsdóttir eru hættar knattspyrnuiðkun og varnarmaðurinn efnilegi, Guðrún Arnardóttir, er farin í Breiðablik.
Selfyssingar hafa styrkt sig fyrir átökin í Pepsi-deildinni með þremur erlendum leikmönnum, markverðinum Nicole McClure og miðjumönnunum Melanie Adelman og Valorie O’Brien.
Þóra Margrét Ólafsdóttir, fyrirliði liðsins, segir spenning í hópnum fyrir komandi knattspyrnusumri og opnunarleiknum gegn KR í kvöld. „Mér lýst vel á leikinn í kvöld og við erum mjög spenntar þrátt fyrir slæma veðurspá, ég held að verði bara ekkert úr veðrinu hér á Suðurlandinu,“ sagði Þóra í samtali við sunnlenska.is. „En jú, við erum bara vel stemmdar og allar heilar.“
Þóra er ánægð með nýju leikmennina í liðinu og telur að þær muni vekja athygli í sumar. „Þær hafa komið virkilega vel inn í þetta. Valorie er gríðarlega sterk á miðjunni og er greinilega mikill vinnuhestur. Melanie er líka að koma sterk inn á miðjunni þar sem hún og þær báðar halda boltanum vel og eru með góðar sendingar og Nicole er svo mjög sterk í markinu,“ segir Þóra.
Spámenn og sparkspekingar spá Selfyssingum nær undantekningalaust botnsætinu í deildinni en verkefni liðsins verður að afsanna þær spár.