Knattspyrnufélag Árborgar lagði ÍH 1-3 á útivelli í kvöld í 2. deild karla og vann þar sinn fyrsta sigur í deildinni síðan 2. júní.
Árborgarar byrjuðu betur og strax á 4. mínútu kom Guðmundur Garðar Sigfússon þeim yfir með gullfallegu marki. Eftir markið tók ÍH leikinn í sínar hendur án þess að skapa sér teljandi færi. Þeir áttu þó eitt skot að marki sem Kristján Sigurjónsson varði á ótrúlegan hátt á línunni en ÍH-ingar sögðu boltann hafa farið yfir línuna og höfðu töluvert til síns máls.
Árborg komst í 2-0 á 44. mínútu þegar Þorsteinn Daníel Þorsteinsson átti góða sendingu af hægri kantinum og þar var Jón Auðunn Sigurbergsson mættur til að skora – nokkuð gegn gangi leiksins.
Síðari hálfleikur var jafn og bæði lið áttu ágæt færi en Steinar Stefánsson varði í tvígang vel í marki Árborgar. Á 70. mínútu kom hann hins vegar engum vörnum við þegar sóknarmaður ÍH slapp innfyrir og minnkaði muninn í 2-1.
Á 78. mínútu fékk Ólafur Magnússon sitt annað gula spjald á stuttum tíma og Árborgarar því einum manni færri. Sá munur stóð ekki lengi því mínútu síðar fékk einn ÍH-inga rauða spjaldið fyrir að brjóta á Steinari markverði.
Árborgarar létu kné fylgja kviði á lokakaflanum og Jón Auðunn bætti þriðja markinu við þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.
Árborg er nú með 10 stig og þarf a.m.k. tólf stig til viðbótar úr síðustu fimm leikjunum ætli liðið að bjarga sér frá falli.