Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis, sigraði á Egils Gullmótinu sem lauk í dag á Hólmsvelli í Leiru. Fannar er 19 ára gamall en þetta er fyrsti sigur hans á Eimskipsmótaröðinni.
„Þetta er frábær tilfinning og ísinn er brotinn á Eimskipsmótaröðinni,“ sagði Fannar Ingi eftir sigurinn í samtali við golf.is.
Fannar lék hringina þrjá á 211 höggum, fimm höggum undir pari og var hann þremur höggum betri en Ragnar Már Garðarsson frá GKG. Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, varð í 9. sæti á 219 höggum, þremur yfir pari vallarins.
Fannar Ingi segist hafa sett sér það markmið fyrir mót að vera í einu af fimm efstu sætunum. „Ég náði að spila vel á öðrum hringnum eftir að hafa verið frekar lengi í gang á fyrsta hringnum. Í dag komst ég að öllum mínum veikleikum og styrkleikum í golfinu. Þolinmæði er í raun lykilatriði á þessum velli, teighöggin eru ekki aðalmálið, heldur annað höggið og mér gekk ágætlega í því,“ sagði Fannar Ingi.
Mótið var þriðja mót keppnistímabilsins 2016-2017 á Eimskipsmótaröðinni. Aðstæður á Hólmsvelli í Leiru voru frábærar alla þrjá keppnisdagana.