Selfoss tapaði mikilvægum stigum í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld þegar liðið tapaði heima gegn Fjölni. Þetta var fyrsti sigur Fjölnis í vetur.
Fjölnir tók strax frumkvæðið í leiknum og leiddi 5-8 um miðjan fyrri hálfleikinn. Munurinn var orðinn átta mörk í hálfleik, 8-16. Munurinn hélst svipaður fram eftir seinni hálfleiknum en á lokasprettinum gaf Fjölnir í og vann með ellefu mörkum, 25-36.
Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 5, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Harpa Brynjarsdóttir 3/2 og þær Elva Rún Óskarsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu báðar 2 mörk.
Viviann Petersen varði 3 skot í marki Selfoss og var með 14% markvörslu og Þórdís Erla Gunnarsdóttir varði 2 skot og var með 10% markvörslu.
Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 5 stig, en Fjölnir kemur þar á eftir með 4 stig.