Hamar vann sinn fyrsta sigur í C-deild deildarbikars karla í knattspyrnu í dag þegar liðið mætti Álafoss á Selfossvelli.
Bjarki Rúnar Jónínuson og Máni Snær Benediktsson komu Hamri í 2-0 á fyrsta korterinu og Rodrigo Depetris bætti þriðja markinu við á 33. mínútu.
Staðan var 3-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var öllu rólegri hvað markaskorun varðaði. Álafoss minnkaði muninn í 3-1 um miðjan seinni hálfleikinn en Bjarki Rúnar skoraði annað mark sitt og tryggði Hamri 4-1 sigur átta mínútum fyrir leikslok.
Hamar er í 5. sæti riðils-2 með 3 stig að loknum þremur umferðum en Álafoss er sæti ofar með jafn mörg stig.