Hamar vann góðan sigur á Ármanni í 1. deild kvenna í körfubolta í gær, þegar liðin mættust í Frystikistunni í Hveragerði.
Ármann skoraði fyrstu átta stigin í leiknum en Hamar náði að minnka muninn í eitt stig áður en 1. leikhluta lauk og eftir jafnan 2. leikhluta leiddi Hamar 36-35 í leikhléi.
Hamarskonur mættu hins vegar gríðarlega ákveðnar inn í seinni hálfleikinn og lögðu grunninn að sigrinum með góðri frammistöðu í 3. leikhluta. Hvergerðingar kláruðu svo leikinn á reynslunni og sigruðu með átján stiga mun, 79-61.
Þórunn Bjarnadóttir var stigahæst Hvergerðinga með 14 stig og Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 12.
Hamar er í 5. sæti 1. deildarinnar með tvö stig.