Hamar/Þór vann góðan sigur á Grindavík í 1. deild kvenna í körfubolta á útivelli í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Hamars/Þórs í deildinni í vetur.
Grindvíkingar voru sterkari í upphafi leiks og leiddu 19-14 eftir 1. leikhluta en Hamar/Þór svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 30-30 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var í járnum en í þeim fjórða byrjaði Hamar/Þór á 9-3 áhlaupi og breytti stöðunni úr 41-42 í 44-51. Grindvíkingar eltu en komust ekki nær og Hamar/Þór kláraði leikinn af öryggi.
Hamar er nú í 5. sæti deildarinnar með 2 stig en Grindavík er tveimur sætum neðar með sama stigafjölda.
Tölfræði Hamars/Þórs: Fallyn Stephens 25/11 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 13/7 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 11/6 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 5, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 4/6 fráköst, Helga María Janusdóttir 4, Elektra Mjöll Kubrzeniecka 1.