Hrunamenn unnu góðan sigur á Ármenningum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hamar tapaði naumlega gegn ÍA.
Á Flúðum tóku Hrunamenn á móti Ármenningum í hörkuleik. Jafnræði var með liðunum framan af en í 2. leikhluta tóku Hrunamenn af skarið og leiddu 58-47 í hálfleik. Hrunamenn leiddu allan seinni hálfleikinn en gestirnir voru aldrei langt undan. Ármenningar náðu að minnka muninn í 7 stig þegar fimm mínútur voru eftir en Hrunamenn héldu haus og kláruðu leikinn af krafti og unnu þar sinn fyrsta sigur í deildinni í vetur.
Ahmad Gilbert var með risaframlag fyrir Hrunamenn, skoraði 45 stig og tók 14 fráköst en Samuel Burt kom honum næstur með 19 stig og 16 fráköst.
Hamarsmenn lögðu leið sína upp á Skaga þar sem þeir heimsóttu ÍA. Liðin skiptust á um að hafa undirtökin í fyrri hálfleik en staðan í leikhléinu var 44-41, ÍA í vil. Seinni hállfeikurinn var hörkuspennandi. ÍA hafði frumkvæðið lengst af en á lokakaflanum skoraði Hamar sex stig í röð og minnkaði muninn í 90-86. Nær komust þeir þó ekki og Skagamenn sigruðu 93-86.
Jose Medina skoraði 32 stig fyrir Hamar og sendi 7 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson skoraði 20 stig og tók 15 fráköst, Mirza Sarajlija skoraði 12 stig og Daði Berg Grétarsson 10.