Knattspyrnufélag Rangæinga vann sinn fyrsta sigur í 3. deild karla í sumar þegar Magni frá Grenivík kom í heimsókn á SS-völlinn á Hvolsvelli í dag. Lokatölur urðu 3-1.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Rangæingar komust yfir um miðjan fyrri hálfleik. Andri Freyr Björnsson tók þá aukaspyrnu yfir á fjærstöng þar sem Guðmundur Garðar Sigfússon var mættur og skallaði inn í markteiginn. Þar komst Reynir Björgvinsson í boltann og hamraði hann í netið.
Staðan var 1-0 í hálfleik og það sama var uppi á teningnum framan af síðari hálfleik þar sem liðin skiptust á að sækja. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum braut aftasti varnarmaður Magna á Reyni Björgvinssyni og uppskar rautt spjald fyrir vikið.
Manni fleiri voru Rangæingar meira með boltann og fljótlega náði Guðmundur Garðar að koma liðinu í 2-0 eftir góðan samleik við Reyni Björgvins upp vinstri kantinn.
Magni minnkaði muninn á 82. mínútu eftir langt útspark og klaufagang í vörn KFR en á lokamínútunum innsiglaði Andri Freyr sigur KFR með frábærum spretti upp vinstri kantinn þar sem hann tók tvo varnarmenn á áður en hann afgreiddi boltann í fjærstöngina og inn.