Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni í uppgjöri neðstu liðanna í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi. Lokatölur voru 19-26.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu þeir í hálfleik 8-13. Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik en Selfyssingar voru yfirvegaðaðri en áður í sóknarleiknum og spiluðu á tíðum ágæta vörn ásamt því að markvarslan var góð.
Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Atli Kristinsson skoraði 6 og Gunnar Ingi 4. Hörður Bjarnarson og Eyþór Lárusson skoruðu báðir tvö mörk og þeir Ómar Helgason, Einar Sverrisson, Magnús Magnússon og Matthías Halldórsson skoruðu allir eitt mark.
Sverrir Andrésson lék vel í markinu, varði 20/1 skot og var með 61% markvörslu. Helgi Hlynsson varði 4 skot og var með 40% markvörslu.
Næsti leikur Selfoss er á mánudagskvöld gegn ÍR á heimavelli í Eimskipsbikarnum.