Selfoss vann sinn fyrsta sigur í 1. deild karla í körfubolta á laugardagskvöld þegar liðið fékk Snæfell í heimsókn í Gjána.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Selfoss leiddi í leikhléi, 43-35. Í seinni hálfleik réðu heimamenn hins vegar lögum og lofum og völtuðu yfir gestina en Snæfell skoraði aðeins 16 stig á síðustu tuttugu mínútunum. Lokatölur urðu 96-51.
Snjólfur Stefánsson var stigahæstur í liði Selfoss með 22 stig og 10 fráköst. Michael Rodriguez skoraði 21 stig, sendi 11 stoðsendingar og stal 4 boltum, Miciek Klimaszewski skoraði 16 stig, Arminas Kelmelis 12 og Hlynur Freyr Einarsson 11.
Selfoss hefur 2 stig í 6. sæti deildarinnar en Snæfell er á botninum án stiga.