Fyrsti sigur Selfyssings í ralli

Jón Bjarni Hrólfsson og Halldór Gunnar Jónsson sigruðu Tjarnagrill rallið um helgina en þetta er í fyrsta sinn sem Selfyssingur sigrar yfir heildina í rallkeppni á Íslandi.

Halldór Gunnar hefur keppt í ralli frá árinu 2001, bæði sem ökumaður og aðstoðarökumaður, en þetta er í fyrsta sinn sem hann sigrar yfir heildina í rallkeppni, þar sem keppt er í nokkrum flokkum.

“Ég er stoltur af því að hafa fært Selfyssingum sigur í fyrsta sinn í rallkeppni yfir heildina. Þetta gekk ágætlega hjá okkur þó að kúplingin í Subarunum hafi verið að stríða okkur allt rallið,” sagði Halldór Gunnar í samtali við sunnlenska.is. “Við tókum forystuna á 1. sérleið en misstum hana á 2. sérleið til Jóns Arnar og Sigurjóns. Við náðum svo aftur forystunni á 3. sérleið og létum hana ekki af hendi eftir það,” sagði Halldór ennfremur.

Halldór er aðstoðarökumaður Jóns Bjarna og sér um að þylja upp leiðarlýsinguna á meðan á akstrinum stendur á allt að 200 km hraða á klst.

Tólf bílar hófu keppni á föstudagskvöld og skiluðu níu sér í endamark síðdegis á laugardag.

Fyrri greinHafþór krossgátumeistari Suðurlands
Næsta greinGeir og Kolbeinn í Árborg