Stokkseyri vann sinn fyrsta sigur í 4. deild karla í knattspyrnu í sumar þegar Kóngarnir komu í heimsókn á Stokkseyrarvöll í kvöld.
„Þetta var frábær sigur og gott fyrir okkur að ná loksins punktum á töfluna. Við vorum mikið betri að mínu mati og það var lélegt hjá okkur að klára þetta ekki bara í fyrri hálfleik. Við fengum tvö mjög góð færi þá, en þeir voru fyrri til að skora,“ sagði Örvar Hugason, fyrirliði Stokkseyrar í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hann skoraði tvö mörk með mínútu millibili í uppbótartíma og tryggði sínum mönnum 5-2 sigur.
„Ég stefndi sjálfur á að skora þrennu í uppbótartíma en það tókst því miður ekki. Tvö mörk á tveimur mínútum er alveg ágætt en menn voru eitthvað ragir við að gefa á mig í kjölfarið. Sem er skrítið því þetta fór ekkert að virka hjá okkur fyrr en strákarnir fóru að senda hann upp vinstra megin.“
Það blés ekki byrlega fyrir Stokkseyringa í upphafi leiks því gestirnir komust yfir strax á 10. mínútu. Þeir héldu forystunni allt fram á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar gamla brýnið Kjartan Helgason jafnaði. 1-1 í hálfleik.
Stokkseyringar voru sterkari í síðari hálfleik og strax í upphafi hans kom Einar Ingi Jónsson Stokkseyringum í 2-1. Andri Marteinsson kom sínum mönnum svo í 3-1 á 64. mínútu en sex mínútum fyrir leikslok minnkuðu gestirnir muninn í 3-2.
Þá upphófst mikill barningur þar sem gestirnir lögðu allt kapp á að ná að jafna en Stokkseyringar lögðu ekki árar í bát. Örvar Hugason létti pressunni af sínum mönnum með góðu marki í uppbótartíma og nokkrum sekúndum síðar skoraði hann fimmta mark Stokkseyringa eftir góðan undirbúning markvarðarins Eyþórs Gunnarssonar sem lék í fremstu víglínu í kvöld.
Með sigrinum lyfti Stokkseyri sér af botni riðilsins og hefur nú 3 stig í 6. sæti en Kóngarnir sitja eftir í botnsætinu, án stiga.