Þór Þorlákshöfn náði í sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur þegar liðið fékk nafna sinn frá Akureyri í heimsókn í Þorlákshöfn í kvöld.
Þorlákshafnar-Þórsarar náðu undirtökunum í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum 27-19. Akureyrar-Þórsarar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 45-45 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en gestirnir frá Akureyri höfðu frumkvæðið í 3. leikhluta. Þór Þorlákshöfn komst yfir aftur í upphafi 4. leikhluta og lét forystuna ekki af hendi síðustu fimm mínútur leiksins þó að Þór Akureyri hafi andað hressilega niður um hálsmálið á þeim á lokasprettinum.
Þór Þ. kláraði leikinn af öryggi á vítalínunni á lokasekúndunum og hleyptu Akureyringunum ekki upp að sér. Lokatölur urðu 85-81.
Tölfræði Þórs Þ: Vincent Bailey 26/10 fráköst, Emil Karel Einarsson 22/6 fráköst, Marko Bakovic 15/12 fráköst/3 varin skot, Vladimir Nemcok 11/7 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 6, Davíð Arnar Ágústsson 2, Halldór Hermannsson 2, Styrmir Snær Þrastarson 1, Benjamín Þorri Benjamínsson 0, Ísak Júlíus Perdue 0.