Fyrstu stig Árborgar

Knattspyrnufélag Árborgar vann sinn fyrsta sigur í 2. deild karla í dag þegar liðið tók á móti toppliði Völsungs á gervigrasinu á Selfossi

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og fátt um færi. Bæði lið gerðu sig þó líkleg upp við vítateiga andstæðinganna en lítið reyndi á markverði liðanna. Guðmundur Garðar Sigfússon kom sér þó í ágætis skotfæri eftir u.þ.b. 20 mínútur en markvörður Völsungs varði. Á 38. mínútu tók Guðmundur Garðar aukaspyrnu úti á vinstri kantinum, boltinn barst inn á markteig þar sem hinn leggjalangi Andy Pew setti fótinn í boltann og potaði honum í netið framhjá markverði Völsungs.

Staðan var 1-0 í leikhléinu en í seinni hálfleik biðu Árborgarar þolinmóðir aftarlega á vellinum. Völsungur var meira með boltann án þess að fá teljandi færi fyrr en undir lokin en Steinar Örn Stefánsson varði vel besta færi Völsungs. Á lokamínútunum sluppu bæði Jón Auðunn Sigurbergsson og Hartmann Antonsson innfyrir vörn Völsungs en markvörður Húsvíkinga sá við þeim í bæði skiptin.

Fyrri greinRisastór afmælisveisla
Næsta greinHamar steinlá á Egilsstöðum