
Hamar vann sinn fyrsta sigur í Lengjubikarnum þetta vorið þegar liðið heimsótti KM í gærkvöldi. Á sama tíma gerðu Uppsveitir jafntefli við Úlfana.
Hamar lenti í basli gegn Knattspyrnufélagi Miðbæjar þegar liðin mættust á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi. KM skoraði tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-0 í leikhléinu. Hamarsmenn hertu tökin í seinni hálfleik, Daníel Ben Daníelsson skoraði strax eftir rúmar tvær mínútur og Georg Guðjohnsen jafnaði metin á 66. mínútu. Þremur mínútum síðar skoraði KM sjálfsmark sem reyndist síðasta mark leiksins og sigurmark Hamars. Lokatölur 2-3.
Uppsveitir heimsóttu Úlfana á Lambhagavöllinn og þar kom Pétur Geir Ómarsson þeim yfir á 32. mínútu. Staðan var 0-1 í leikhléi. Úlfarnir byrjuðu betur í seinni hálfleiknum og jöfnuðu metin þegar rúmar sex mínútur voru liðnar. Þar við sat. Mörkin urðu ekki fleiri þrátt fyrir burðugar sóknir beggja liða.
Þetta voru fyrstu stig sunnlensku liðanna í Lengjubikarnum. Uppsveitir eru í 4. sæti í riðli-2 með 1 stig. Í riðli-3 er Hamar í 3. sæti riðilsins með 3 stig.