Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Lengjubikar karla í knattspyrnu í vor þegar Grindavík kom í heimsókn á gervigrasvöllinn á Selfossi í kvöld.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sóttu á köflum stíft að marki Grindavíkur. Boltinn vildi þó ekki í netið fyrr en á 41. mínútu þegar Valdimar Jóhannsson vann hann á miðjunni og renndi honum innfyrir á Gary Martin sem átti ekki í neinum vandræðum með að skora.
Staðan var 1-0 í leikhléi og seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Bæði lið áttu góðar sóknir og Grindvíkingar voru hættulegir þegar þeir sóttu hratt. Annað mark Selfyssinga leit svo dagsins ljós á 90. mínútu eftir skyndisókn. Gary Martin geystist þá upp völlinn og sendi boltann fyrir markið þar sem Valdimar framlengdi hann á Hrvoje Tokic sem skoraði örugglega af stuttu færi.
Lokatölur 2-0 og Selfyssingar lyftu sér upp fyrir Grindavík, upp í 5. sæti riðilsins með 3 stig, en Grindavík er enn án stiga.