Selfyssingar eru komnir á blað í úrvalsdeild kvenna í handbolta eftir sigur á ÍR í Set-höllinni á Selfossi í gærkvöldi.
Eftir þreifingar á upphafsmínútunum sigu Selfyssingar framúr, þær komust í 8-3 og munurinn hélst í fimm mörkum lengst af fyrri hálfleiknum. ÍR minnkaði muninn í þrjú mörk skömmu fyrir hálfleik en staðan var 12-8 í leikhléi.
Selfoss hafði góð tök á leiknum í seinni hálfleik og munurinn hélst í 4-5 mörkum allt þar til á lokamínútunum að ÍR náði að minnka muninn í tvö mörk. Sigri Selfyssinga var hins vegar ekki ógnað og lokatölur urðu 25-22.
Katla María Magnúsdóttir skoraði 6 mörk fyrir Selfoss, Perla Ruth Albertsdóttir 6/2, Arna Kristín Einarsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 3 og þær Hulda Hrönn Bragadóttir, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir, Hulda Dís Þrastardóttir og Adela Jóhannsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Cornelia Hermansson átti mjög góðan leik í marki Selfoss og varði 14/1 skot.