Hundraðasta og fjórða Íslandsglíman fór fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans sl. laugardag. Tveir keppendur frá HSK tóku þátt í mótinu.
Brynhildur Hrönn Sigurjónsdóttir varð í þriðja sæti í kvennaflokki og eru þetta fyrstu verðlaun hennar í Íslandsglímu. Guðrún Inga Helgadóttir varð fjórða. Marín Laufey Davíðsdóttir, sem sigrað hefur keppnina síðustu ár tók ekki þátt að þessu sinni.
Keppnin var skemmtileg og fjölmargir áhorfendur urðu vitni að spennandi keppni frá upphafi til enda.
Í glímunni um Grettisbeltið sigraði Pétur Eyþórsson, Ármanni og hlaut þar með sæmdarheitið glímukóngur Íslands í níunda sinn. Í glímunni um Freyjumenið sigraði Sólveig Rós Jóhannsdóttir, GFD og hlaut sæmdarheitið glímudrottning Íslands í þriðja sinn.