Selfyssingurinn Sigursveinn Sigurðsson, Frískum Flóamönnum, varð um helgina fyrsti Sunnlendingurinn til þess að hlaupa maraþonhlaup undir þremur klukkustundum.
Sigursveinn tók þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu á sunnudaginn og kom í mark á tímanum 2:59,14. Hann bætti þar með héraðsmetið í karlaflokki um rétt rúmar tvær mínútur en fyrra met setti Valdimar Bjarnason, Þór Þ, í Amsterdam árið 2012.
Besti árangur Sigursveins áður var 3:04,02 klst sem hann náði í Kaupmannahöfn í fyrra og var þá héraðsmet í flokki 40-44 ára.
„Það var langþráð markmið að komast undir 3 þrjá tímana, það var ógleymanleg tilfinning að sjá klukkuna í markinu og ná markmiðinu loksins, þetta var fjarlægur draumur þegar ég byrjaði að hlaupa og tók nokkrar tilraunir,“ sagði Sigursveinn í samtali við sunnlenska.is.
Öfundaði fólk að geta þetta
Sigursveinn er aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands og hann byrjaði að hlaupa sumarið 2017 eftir að hafa farið með FSu í skólaheimsóknir til Valencia á Spáni sama vor.
„Þar voru margir að hlaupa og ég man að ég öfundaði fólk að geta þetta. Þegar ég kom heim byrjaði ég svo að hlaupa og komst nú ekki langt til að byrja með, kannski 2 km fyrstu skiptin og þurfti samt að labba inn á milli,“ segir Sigursveinn og brosir.
Hann var þó fljótur að ná úthaldi og góðum hraða í hlaupunum en Sigursveinn á nú héraðsmetið í Bláskógaskokkinu og einnig HSK-metið í 10 km götuhlaupi 40-44 ára.
Sigursveinn segir upplifunina af hlaupinu í Kaupmannahöfn hafa verið ánægjulega og ekki skemmdi fyrir að geta fagnað með bróður sínum, Jóhanni Ólafi, sem var að hlaupa sitt fyrsta maraþon og betri helmingum þeirra sem studdu þá til dáða í hlaupinu.