Blés á móti í seinni hálfleik

Sif Atladóttir reynir skot að marki ÍBV í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti ÍBV í Suðurlandsslag í 1. deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Eyjakonur kláruðu leikinn með vindinn í bakið í seinni hálfleik og sigruðu 0-3.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og bæði lið áttu ágætar sóknir og sköpuðu sér nokkur færi. Ekkert var skorað fyrir hálfleik en það breyttist í seinni hálfleiknum.

Á 66. mínútu spiluðu Eyjakonur sig auðveldlega í gegnum Selfossvörnina eftir að Selfoss missti boltann á hættulegum stað og Olga Sevcova skoraði af öryggi. Fimm mínútum síðar kom langur bolti inn á teig þar sem Helena Hekla Hlynsdóttir pressaði Evu Ýr Helgadóttur, markvörð Selfoss, og kom boltanum í netið. ÍBV kórónaði svo þennan sjö mínútna kafla með langri sendingu fram völlinn þar sem Sevcova steig út varnarmann Selfoss og skoraði auðveldlega.

Selfoss er áfram í fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir, með 14 stig, þremur stigum og þremur mörkum frá öruggu sæti. ÍBV er á hinum enda töflunnar í baráttunni um 2. sætið í deildinni, með 25 stig í 4. sæti.

Fyrri greinStórbruni við Stokkseyri
Næsta greinMikið tjón í brunanum í Hoftúni II