Davíð Birgisson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Selfoss frá því í 1. umferðinni gegn Fylki. Davíð var frískur í framlínunni og skoraði eina mark Selfoss í leiknum.
„Við byrjuðum mjög vel og mættum þeim af krafti fyrstu tuttugu mínúturnar. Þeir fengu betri færi og hefðu getað komist yfir en mér fannst þetta jafnt og við börðumst vel fyrir þessu,“ sagði Davíð sem kom Selfoss yfir eftir fimmtán sekúndna leik í síðari hálfleik.
„Það var auðvitað frábær byrjun en við fylgdum því ekki eftir og fengum síðan á okkur skítamark í stöðunni 1-1.“
Þetta var fyrsta mark Davíðs í úrvalsdeildinni og hann var ánægður með það og tækifærið sem hann fékk í byrjunarliðinu. „Mér finnst gott að fá loksins að byrja, ég er búinn að bíða eftir því lengi. Það var líka gaman að skora en það telur ekkert ef maður tapar svo leiknum,“ sagði markaskorarinn að lokum.