Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson kom inná af varamannabekknum eftir aðeins fimmtán mínútna leik þegar Ísland mætti heimsmeisturum Frakka í undankeppni Evrópumeistaramótsins á Laugardalsvellinum í kvöld.
Jón Daði kom inn á vinstri kantinn þegar Jóhann Berg Guðmundsson þurfti að fara meiddur af velli. Jón Daði átti fínan leik en það kom ekki í veg fyrir 0-1 sigur Frakka. Oliver Giroud skoraði úr vítaspyrnu á 66. mínútu.
„Við gerðum allt rétt“
„Auðvitað hefði verið betra að fá stig út úr þessum leik en mér fannst við standa í þeim. Frakkar eru með heimsklassalið og við gerðum allt rétt, nema við hefðum kannski mátt vera aðeins beittari fram á við,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Frakkar voru mjög agaðir í sínum leik en það er svekkjandi að tapa þessu svona, á ódýru víti. Mér fannst þetta ekki vera víti, en sumir dómarar meta þetta svona. Þetta var „soft“.
„Sjokk þegar einhver meiðist“
Jón átti að sjálfsögðu ekki von á því að koma inná eftir korter en hann var fljótur að koma sér inn í leikinn.
„Það er smá sjokk þegar einhver meiðist og maður getur ekki hitað upp og er hent strax inná. Ég átti auðvitað ekki von á því að koma strax inná. Það tók mig nokkrar mínútur að komast inn í leikinn en ég var með Ara Frey bakvið mig sem kallaði mikið á mig. Það var gaman að rifja upp gömlu kantstöðuna, maður kann alveg á hana ennþá. Ég þurfti að hlaupa mikið og verjast. Við vissum það alveg. Þeir eru svakalega sókndjarfir báðir frönsku bakverðirnir og svo eru einhverjar rakettur þarna á köntunum þannig að ég þurfti að sinna varnarhlutverkinu meira,“ sagði Jón Daði en hann fékk þó eitt besta færi Íslands á 31. mínútu þegar Steve Mandanda varði ágætt skot frá honum.
„Ég hefði átt að gera betur, ég náði ekki boltanum nógu langt frá löppunum á mér þannig að það var ekki eins mikill kraftur í skotinu og ég hefði viljað. Við þurfum bara að vinna í því,“ sagði Selfyssingurinn og brosti.
„Alltaf séns“
„Það hefði verið skemmtilegt að ná stigi, 0-0 hefðu verið sanngjörn úrslit. Menn voru svekktir inni í klefa en við erum ekkert að panikka. Það er svakalega mikilvægur leikur strax á mánudaginn gegn Andorra og við mætum hungraðir í þann leik. Þetta er kannski ekki óskastaðan sem við erum í núna í 3. sæti riðilsins en þó að útlitið sé svart þá er alltaf séns,“ sagði Jón Daði að lokum.
Viðar Örn Kjartansson og Jón Guðni Fjóluson voru ónotaðir varamenn í leiknum.