Garðar heiðraður á jólasýningunni

Garðar og Valborg ásamt dætrunum og barnabörnunum á fimleikasýningunni um síðustu helgi. Ljósmynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða

Á jólasýningu fimleikadeildar Umf. Selfoss um síðustu helgi heiðraði stjórn fimleikadeildarinnar Garðar Garðarsson, stofnanda deildarinnar.

Fimleikadeildin var stofnuð þann 7. september árið 1987 og var Garðar helsti hvatamaðurinn að stofnun deildarinnar og fyrsti formaður hennar.

Það var Guðrún Ásta, dóttir hans, núverandi stjórnarmeðlimur og – að segja má – sá iðkandi sem deildin var stofnuð í kringum, sem veitti honum blómvönd.

Á myndinni sem fylgir fréttinni er Garðar ásamt eiginkonu sinni, Valborgu S. Árnadóttur og dætrunum þremur, en ein þeirra, Ingibjörg Garðarsdóttir, er núverandi formaður deildarinnar.

Á myndinni eru (neðri röð f.h.) Ingibjörg Garðarsdóttir, Garðar Garðarsson, Valborg S. Árnadóttir, Guðrún Ásta Garðarsdóttir, Eydís Helga Garðarsdóttir og Sunna Dís Harðardóttir. (Efri röð f.h.) Kamilla Hafsteinsdóttir, Ellý Alexandra Einarsdóttir, Daníel Garðar Einarsson, Máni Snær Harðarson, Nadía Björt Hafsteinsdóttir og Magnea Arna Sigurðardóttir.

Öll barnabörn Garðars og Valborgar æfa eða hafa æft fimleika hjá deildinni frá unga aldri og þær elstu, Nadía Björt og Magnea Arna hafa einnig þjálfað hjá deildinni. Litla skottan, Sunna Dís, er reyndar ekki komin í fimleika ennþá en á örugglega eftir að spreyta sig þar ef eitthvað er að marka íþróttagenin.

Fyrri greinÍslensk knattspyrna 2018 komin út
Næsta greinÞórsarar völtuðu yfir Hauka