Hlauparinn Kári Steinn Karlsson vann öruggan sigur á boðhlaupssveit Knattspyrnufélags Árborgar í Brúarhlaupinu á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi í dag.
Kári hljóp 10 kílómetra hlaup í kappi við boðhlaupssveit Árborgara sem létu boðhlaupskeflið ganga með rúmlega 900 metra millibili. Eftir um það bil einn kílómetra var Kári kominn með gott forskot og skildi knattspyrnumennina á endanum eftir í rykmekki.
Tími Kára Steins var 30:40 mínútur en knattspyrnuliðið kom í mark í 2. sæti á 33:10 mín, tveimur og hálfri mínútu á eftir Kára Steini, sem hafði um 900 metra forskot á knattspyrnupiltana.
„Þetta er ekki hægt, gaurinn er ekki mennskur, hann hleypur eins og vélmenni,“ sagði Tómas Kjartansson, fyrirliði boðhlaupssveitar Árborgar í samtali við sunnlenska.is. „Við verðum að girða okkur í brók og taka hann að ári.“