Geggjuð braut og allt upp á tíu

Mýrdalshlaupið er ræst í Víkurfjöru. Hlaupið er í átt að Reynisdröngum, en í fjarska sést Hjörleifshöfði.

Mýrdalshlaupið var haldið í níunda sinn síðastliðinn laugardag. Aðstæður til keppnishlaups voru eins og best verður á kosið í Vík og nágrenni og skartaði umhverfið sínu fegursta. Alls voru um 350 keppendur skráðir til leiks í tveimur vegalengdum; 10 km og 21 km.

Það var hin gríðarsterka Andrea Kolbeinsdóttir sem kom fyrst kvenna í mark í lengri vegalengdinni á tímanum 1:56:32 klst. en ljóst er að við eigum eftir að sjá þessa öflugu hlaupakonu fara langt á næstu árum. Næstar á eftir henni komu Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (2:13:37) og hlaupadrottningin Elísabet Margeirsdóttir var sú þriðja (2:19:10). Andrea sagði hlaupið eitt það erfiðasta og skemmtilegasta sem hún hefur hlaupið. „Ég var ekki búin að kynna mér leiðina nóg svo ég hélt að ég væri bara komin upp á topp, en svo kom bara önnur brekka þar sem ég endaði á að klifra upp áður en ég hljóp niður í bæinn aftur. Alveg geggjuð braut og allt upp á tíu hjá þeim,” sagði Andrea að hlaupi loknu.

Andrea Kolbeinsdóttir og Grétar Örn Guðmundsson á fleygiferð á Reynisfjalli.

Meðal karlanna var það Þorsteinn Roy Jóhannsson sem kom fyrstur, á tímanum 1:51:52 klst, og á eftir honum komu þeir Jörundur Frímann Jónasson (1:54:35) og Grétar Örn Guðmundsson (01:55:18).

Í 10 km hlaupinu voru Atli Jakob Hlöðversson (58:14 mín) og Gerður Rún Guðlaugsdóttir (59:26 mín) hlutskörpust, en Rúnar Andrew Jónsson (58:38 mín), Vilhjálmur Skúli Steinarsson (59:00 mín), Lilja Dögg Eldon (01:04:53 klst) og Diljá Rut Guðmundsdóttir (01:08:13 klst) röðuðu sér í önnur og þriðju sæti.

Meðal keppenda var Sabina Victoria Reinholdsdóttir kennari í Vík, en hún er sú eina sem hefur hlaupið í Mýrdalshlaupinu í öll níu skiptin sem það hefur verið haldið. Victoria segir það skemmtilegasta við hlaupið sé að þarna hittist fyrir hlauparar á öllum aldri og öllum getustigum og takist á við fjöllin í Mýrdalnum saman. „Þetta er erfitt hlaup, sama hvort þú ert áhugahlaupari eða reynslubolti og það er ákveðið afrek að klára það. Það skapast ákveðin stemning og samhugur í að tækla þetta öll saman,” segir Victoria um Mýrdalshlaupið.

Sabina Victoria Reynholdsdóttir kennari í Vík hefur tekið þátt í Mýrdalshlaupinu frá upphafi.

Framkvæmd hlaupsins gekk vel og öll umgjörð hlaupsins var til fyrirmyndar. Hlaupið er skipulagt og haldið af sjálfboðaliðum í góðgerðarskyni og eru ýmis félagasamtök sem njóta góðs af framkvæmd hlaupsins, meðal annars Ungmennafélagið Katla, Jaðarsportklúbburinn Víkursport, Björgunarsveitin Dagrenning og Kvenfélagið Ljósbrá. Verslunin Sportvörur er helsti samstarfs- og styrktaraðili Mýrdalshlaupsins.

Fyrri greinTvö rauð á loft þegar Stokkseyri tapaði
Næsta grein„Um einstakt átak að ræða“