Kvennalið Selfoss tapaði 6-1 gegn Afríkumeisturum Nígeríu í æfingaleik á Pinatar æfingasvæðinu á Spáni í dag. Staðan var 1-1 í hálfleik.
„Fyrri hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Við vorum betra liðið í fyrri hálfleik og Magdalena Reimus skoraði frábært mark á 32. mínútu þar sem hún krullaði boltann upp í samskeytin. Nígería skoraði ódýrt mark á 41. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við fengum frábær færi í upphafi seinni hálfleiks en síðan gáfum við dálítið eftir. Nígería skipti nánast um allt liðið í hálfleik og þær keyrðu nánast yfir okkur í restina. Þær skoruðu fimm mörk á átján mínútna kafla og kláruðu leikinn. Mér finnst 6-1 allt of stórt tap miðað við hvernig þetta spilaðist og ég er hundfúll að hafa tapað svona stórt fyrir Afríkumeisturunum. Þetta er öðruvísi lið en við erum vanar að mæta. Mjög sterkar líkamlega og með hraða og snerpu. En auðvitað er þetta geggjuð reynsla fyrir okkur og gaman að fá að mæta svona liði,“ sagði Alfreð ennfremur.