Hluti Hótels Arkar í Hveragerði var rýmdur í kvöld þegar fólk varð vart við reykjarlykt í húsinu. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði voru kallaðir út klukkan 19:42.
„Það tók smá stund að finna út úr því hvað þetta væri. Það var mikil reykjarlykt í húsinu þegar við mættum á vettvang. Það kom síðan í ljós að spennir í rafmagnstöflu í kjallaranum hafði brunnið, það var enginn eldur en við reyk- og lyktarlosuðum rýmið,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Það var talsvert af fólki í eldri hluta hússins og hann var rýmdur á meðan verið var að kanna aðstæður. Það gekk hratt fyrir sig og það var engin hætta á ferðum þannig að þetta fór allt vel,“ bætti Pétur við.
Lögregla og sjúkraflutningamenn frá Selfossi mættu á vettvang ásamt slökkviliðsmönnum frá Hveragerði sem luku störfum tæpri klukkustund eftir að útkallið barst.