Ungmennalið Selfoss vann nauman sigur á ungmennaliði Vals í Grill-66 deild karla í handbolta að Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn var sveiflukenndur en Selfosspiltar gengu vasklega fram á lokakaflanum og tryggðu sér sigur.
Selfyssingar komust í 1-4 í upphafi leiks en Valur-U jafnaði 5-5 og eftir það var jafnræði með liðunum út fyrri hálfleikinn. Staðan í leikhléi var 17-17.
Í seinni hálfleik virtist allt ætla að ganga upp hjá Selfyssingum og þeir voru í draumalandi í stöðunni 20-26. En sú sæla varði ekki lengi og Valsmenn átu niður forskotið eins og hrægammar. Lokakaflinn var ekki fyrir hjartveika.
Valur jafnaði 33-33 á lokamínútunni en Hans Jörgen Ólafsson steig upp þegar mest á reyndi og negldi inn sigurmarki Selfoss-U í blálokin.
Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Sölvi Svavarsson og Hans Jörgen skoruðu 6, Gunnar Kári Bragason 5, Sæþór Atlason og Vilhelm Steindórsson 4 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu báðir 1 mark en Alexander var með um 30% markvörslu þar að auki, samkvæmt tíðindamanni Sunnlenska í Valshreiðrinu, á að giska 14 skot.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss-U er í 8. sæti með 9 stig en Valur-U er í 3. sæti með 15 stig.