Þór Þorlákshöfn lék í fyrsta sinn til úrslita í bikarkeppni karla í körfubolta í gær. Þar mættu Þórsarar KR og eftir bráðfjörugan leik höfðu Vesturbæingar betur, 95-79.
„Við töpuðum allt of mörgum boltum og vorum ekki nógu ákveðnir. Við létum ýta okkur út úr ákveðnum aðgerðum og það er bara dýrt í svona leik,“ sagði Grétar Ingi Erlendsson, leikmaður Þórs, í viðtali við karfan.is eftir leik.
„Við ætluðum að halda áfram að keyra í sókninni í seinni hálfleik og reyna að stoppa þá. Við gerðum bara allt of mörg mistök og á móti svona liði þá er það dýrkeypt.“
KR byrjaði betur í leiknum en Þórsarar tóku af skarið í 2. leikhluta og náðu að komast yfir fyrir leikhlé, 39-40. Þriðji leikhluti var í járnum en undir lok hans náðu KR-ingar níu stiga forskoti, 63-54.
Í síðasta fjórðungnum var ekki spurning hvert bikarinn myndi fara. KR-ingar voru sterkari bæði í vörn og sókn og Þórsarar reyndu að narta í hælana á þeim en gekk ekki.
Þórsliðið fór heim með silfurpening um hálsinn en eru nú búnir að fá að bragða af bikarúrslitastemmningunni og mæta reynslunni ríkari í næsta úrslitaleik.
Tölfræði Þórs: Vance Hall 34 stig/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 11 stig, Grétar Ingi Erlendsson 10 stig/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9 stig, Emil Karel Einarsson 6 stig, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 5 stig/19 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 1 stig.