Gerir ekki upp á milli íþróttanna

Marín Laufey Davíðsdóttir stóð í ströngu sl. laugardag þar sem hún tryggði sér bikarmeistaratitil í glímu áður en hún brunaði í Grafarvoginn og átti fínan leik í sigri Hamars á Fjölni í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta.

Rætt er við Marín í Fréttablaðinu í dag og þar segist hún hafa verið alveg búin á því á laugardagskvöldið. „Það kom mér á óvart hvað ég var lítið þreytt eftir glímuna. En um kvöldið var ég svo örmagna,“ sagði Marín sem skoraði 12 stig og tók 11 fráköst í 81-76 útisigri Hvergerðinga.

Marín, sem verður 17 ára í maí, hefur æft körfubolta í sex ár og glímu í fjögur ár. Hún segir íþróttirnar eiga ýmislegt sameiginlegt en sprengikrafturinn og snerpan nýtist í þeim báðum.

„Í glímunni skiptir maður allt í einu úr stíganda yfir í bragð þar sem þarf mikinn kraft. Hið sama er uppi á teningnum í körfunni þegar maður þarf að spretta upp völlinn eftir að hafa staðið vaktina í vörninni,“ segir Marín.

Marín hefur í nógu að snúast því auk þess að sinna glímunni og körfuboltanum er hún í hestamennsku á sumrin. Hún segist reyna að sinna öllu sem hún geri vel en körfuboltinn fái þó heilt á litið mesta athygli.

„Eftir því sem maður verður eldri eykst pressan að velja þá íþrótt sem maður vill einblína á. Ég er samt ekki komin á þann stað ennþá,“ segir Marín sem á greinilega framtíðina fyrir sér á fleiri sviðum en einu.

Frétt Fréttablaðsins

Fyrri greinNýtt myndband komið í loftið
Næsta greinSelfoss fær markvörð frá Jamaica