Gestirnir gerðu áhlaup undir lokin

Halldór Garðar Hermannsson skoraði 9 stig fyrir Þórsara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn þarf að bíða eftir fyrsta sigri sínum í Dominos-deild karla í körfubolta en í kvöld tapaði liðið á heimavelli gegn Njarðvík, 80-90 í hörkuleik.

Þórsarar höfðu frumkvæðið lengi vel í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 43-38. Heimamenn mættu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn en þegar leið á 3. leikhluta efldust gestirnir og þeir náðu að jafna, 64-64, með síðustu körfu 3. leikhluta.

Njarðvíkingar gerðu svo 14-2 áhlaup í upphafi 4. leikhluta og Þórsarar náðu ekki að jafna sig á því. Gestirnir héldu forskotinu til leiksloka og sigruðu með tíu stiga mun.

Að loknum tveimur umferðum eru Þórsarar stigalausir í neðsta sæti deildarinnar.

Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 27/11 stoðsendingar, Kinu Rochford 23/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9/5 fráköst/6 stolnir, Ragnar Örn Bragason 8, Davíð Arnar Ágústsson 8, Magnús Breki Þórðason 5.

Fyrri grein„Besta handboltalið sem félagið hefur átt“
Næsta grein100 ár frá gosi í Kötlu