Hamar/Þór tók á móti Njarðvík í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Þrátt fyrir að liðin séu að berjast á sitthvorum enda töflunnar var um hörkuleik að ræða þar sem Njarðvík hafði betur að lokum, 93-106.
Njarðvík skoraði fyrstu sjö stigin í leiknum og leiddi allan 1. leikhluta. Hamar/Þór minnkaði muninn í 17-18 en staðan var 21-25 að 1. leikhluta loknum. Annar leikhluti var jafn framan af en um hann miðjan tóku Njarðvíkingar frumkvæðið og þær náðu tíu stiga forskoti fyrir hálfleik, 46-56.
Hamar/Þór byrjaði betur í seinni hálfleiknum og um miðjan 3. leikhluta komust þær yfir, 65-64. Leikurinn var í járnum eftir það og þegar þrjár mínútur voru liðnar af 4. leikhluta var Hamar/Þór yfir, 80-78. Þá slaknaði á varnarleik liðsins og Njarðvíkingar voru sterkari á lokakaflanum. Að lokum skildu þrettán stig liðin að.
Eins og oft áður var Abby Beeman stiga- og framlagshæst hjá Hamri/Þór í kvöld. Hún skoraði 30 stig og tók 11 fráköst.
Eftir sextán umferðir er Hamar/Þór í 8. sæti deildarinnar með 10 stig en Njarðvík er í 4. sæti með 22 stig.
Hamar/Þór-Njarðvík 93-106 (21-25, 25-31, 28-22, 19-28)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 30/11 stoðsendingar, Hana Ivanusa 20, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 19, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 8, Anna Soffía Lárusdóttir 6, Gígja Rut Gautadóttir 5/4 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 3/4 fráköst, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 2.