Ungmennalið Selfoss tapaði næsta örugglega gegn Herði frá Ísafirði í Grill66 deild karla í handbolta í dag. Lokatölur í Set-höllinni á Selfossi urðu 29-41.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik þó að Harðarmenn væru skrefinu á undan. Þegar fjórar mínútur voru til leikhlés var staðan 17-17 en Hörður skoraði síðustu fjögur mörkin í fyrri hálfleik og leiddi 17-21 í hálfleik.
Það hallaði síðan heldur undan fæti hjá Selfyssingum í upphafi seinni hálfleiks. Hörður hóf hann á 5-1 áhlaupi og breytti stöðunni í 18-26. Eftirleikurinn var erfiður fyrir Selfyssingana ungu. Harðarmenn fóru á kostum í sókninni og áttu auðvelt með að komast í gegnum Selfossvörnina og lokatölur urðu 29-41.
Sölvi Svavarsson, Gunnar Kári Bragason, Vilhelm Freyr Steindórsson og Tryggvi Sigurberg Traustason voru markahæstir hjá Selfossi-U í dag, allir með 4 mörk. Haukur Páll Hallgrímsson, Hannes Höskuldsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu allir 3 mörk, Gunnar Flosi Grétarsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson og Einar Ágúst Ingvarsson skoruðu sitt markið hvor.
Selfoss-U er í 5. sæti deildarinnar með 18 stig en Hörður er í 2. sætinu með 26 stig.