Gestirnir höfðu betur í spennuleik

Emma Hrönn Hákonardóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tapaði naumlega gegn KR í gær, þegar keppni hófst í 1. deild kvenna í körfubolta. Liðin mættust í Hveragerði.

KR var skrefinu á undan í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 22-27. Hamar/Þór komst yfir í upphafi 2. leikhluta en KR átti síðustu körfu fyrri hálfleiks og staðan var 38-39 í leikhléi.

Það var hart barist í seinni hálfleik, KR náði 8 stiga forskoti í upphafi 3. leikhluta en Hamar/Þór jafnaði 52-52 þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar og eftir það var leikurinn í járnum. KR hafði þó frumkvæðið og eftir spennandi lokakafla skoruðu gestirnir síðustu þrjú stig leiksins sem tryggði þeim 92-97 sigur.

Emma Hrönn Hákonardóttir var stigahæst með 34 stig og 8 fráköst og Aniya Thomas átti frábært framlag á sínum 40 mínútum; 30 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar. Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoraði 14 stig, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 6 og tók 11 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir skoraði 4 stig, Helga María Janusdóttir 2 og þær Stefanía Ósk Ólafsdóttir og Gígja Rut Gautadóttir skoruðu 1 stig hvor. Þóra Auðunsdóttir sendi 3 stoðsendingar og tók 2 fráköst.

Fyrri grein„Hálf súrrealískt tilfinning“
Næsta greinGul viðvörun vegna úrhellisrigningar