Ægir varð af sigri á lokamínútu leiksins gegn Víði þegar liðin mættust í 3. deild karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í kvöld. Lokatölur urðu 2-2.
Isaac Owusu Afriyie kom Ægismönnum yfir strax á 4. mínútu en Víðismenn jöfnuðu á 17. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Cristofer Rolin náði forystunni aftur fyrir Ægi á 73. mínútu og allt stefndi í sigur heimamanna þangað til á lokamínútu leiksins að Víðir náði að jafna metin.
Ægir er í 2. sæti deildarinnar með 9 stig en næstu lið fyrir neðan eiga flest leik til góða. Víðir er í 5. sæti með 8 stig.
Í 4. deildinni heimsótti KFR Berserki í Fossvoginn. Heimamenn sigruðu 1-0 með marki undir lok fyrri hálfleiks. KFR er í 5. sæti A-riðilsins með 3 stig og Berserkir í 6. sæti með jafnmörg stig.