Hamar-Þór fékk Aþenu í heimsókn í 1. deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í dag. Gestirnir leiddu allan leikinn og sigruðu að lokum 69-77.
Liðunum gekk illa að skora framan af leiknum en Aþena hafði frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddi 11-15 að honum loknum. Hamar-Þór átti ágætan kafla í 2. leikhluta og náði að minnka muninn í eitt stig, en Aþena átti alltaf svar þegar Hamar nálgaðist. Staðan í hálfleik var 27-35.
Aþena var sterkari í 3. leikhlutanum og jók forskotið jafnt og þétt, en í þeim fjórða kom Hamar-Þór til baka. Bilið var hins vegar orðið of mikið og heimakonur náðu aðeins að minnka muninn niður í átta stig á lokamínútunni.
Astaja Tyghter var stigahæst hjá Hamri-Þór með 29 stig og 15 fráköst og Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 12.
Með sigrinum fór Aþena uppfyrir Hamar-Þór á töflunni, Hamar-Þór er í 10. sæti deildarinnar með 2 stig og Aþena í 9. sæti með 4 stig.
Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 29/15 fráköst/5 stoðsendingar, Hrafnhildur Magnúsdóttir 12/4 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 7, Berglind Karen Ingvarsdottir 7/4 fráköst, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 6/4 fráköst, Helga María Janusdóttir 3, Gígja Rut Gautadóttir 3, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 2/5 fráköst/5 stoðsendingar.