Selfoss varð af mikilvægum stigum í Olísdeild kvenna í handbolta í dag þegar Haukar komu í heimsókn í Set-höllina á Selfossi.
Jafnræði var með liðunum lengst af fyrri hálfleik, Selfoss var skrefinu á undan og hafði forystuna nær allan fyrri hálfleikinn og með því að skora síðustu tvö mörkin tryggðu þær sér 19-15 forystu fyrir hálfleik.
Haukar byrjuðu betur í seinni hálfleik og þegar átta mínútur voru liðnar af honum komust gestirnir yfir, 20-21. Þessi slaka byrjun í seinni hálfleik varð Selfyssingum að falli í dag því Haukar héldu forskotinu allt til enda og munurinn varð mestur sex mörk, 26-32. Selfoss minnkaði muninn aftur undir lok leiks en Haukar unnu öruggan sigur, 33-36.
Roberta Stropé var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 7/1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 4, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir 3 og þær Rakel Guðjónsdóttir og Arna Kristín Einarsdótitr skoruðu báðar 2 mörk. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 11/1 skot í marki Selfoss og var með 25,6% markvörslu og Cornelia Hermansson varði 2 skot og var með 33,3% markvörslu.
Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en Haukar eru í 5. sæti með 8 stig.