Hamarsmenn töpuðu 94-107 þegar Fjölnir kom í heimsókn í Hveragerði í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.
Þetta var hörkurimma og ekkert gefið eftir. Fjölnir hafði frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn en Hamar var aldrei langt undan og í hálfleik var staðan 48-54. Eltingaleikurinn hélt áfram í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða var staðan 81-84. Þá kom 11-3 áhlaup hjá Fjölni sem fór langt með að gera út um leikinn. Þeir héldu Hamri í hæfilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks og munurinn varð að lokum þrettán stig.
Dareial Franklin var allt í öllu hjá Hamri með 46 stig. Hann tók átján þriggja stiga skot í leiknum en reyndar rataði aðeins helmingur þeirra ofan í körfuna.
Hamar er áfram í 9. sæti deildarinnar með 6 stig en Fjölnir er í 4. sæti með 20 stig.
Tölfræði Hamars: Dareial Franklin 46/6 fráköst/5 stolnir, Maciek Klimaszewski 11/6 fráköst, Alfonso Birgir Söruson Gomez 8/4 fráköst, Haukur Davíðsson 7/4 fráköst, Sigurður Dagur Hjaltason 5/4 fráköst, Daði Berg Grétarsson 4/5 fráköst/8 stoðsendingar, Ragnar Magni Sigurjónsson 4/4 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 4, Kristinn Ólafsson 4, Mikael Rúnar Kristjánsson 1.